Hún situr og horfir út um gluggann, á því sem er nú heimili hennar.
Í tvö ár hefur hún búið hér. Útsýnið er ekkert sérstakt, frá herbergi hennar sér hún upp á Sæbraut og hina endalausu umferð um tímann.
Eftir smá stund áttar hún sig á því að hún er farin að kroppa í sárið eftir sprautuna. Eftir sprauturnar verður hún svo sljó og þreytt, hugsanir hennar verða þokukenndar og hægar, líkt og í slow motion.
En áhrif sprautunnar eru farin að dvína, svo hún verður aftur orðin hún sjálf eftir stutta stund. Hún situr róleg og finnur hvernig áhrifin dofna, leka úr henni svipað og þegar hún skar sig fyrir ári eða svo, og blóðið lak úr henni. Það var gott, minnti hana. Hún fer í inniskóna og gerir sig tilbúna að fara fram, en þá heyrir hún hvíslað í eyra sér:
– “ekki fara fram.” Hún brosir, er aftur orðin hún sjálf og Gummi er kominn, þá þarf hún ekki að fara fram.
Gummi er um tvítugt, mjög myndalegur og hann tilheyrir henni,
þó fá þau svo sjaldan að vera bara tvö ein.
Hann hvíslar í eyra hennar fögrum orðum.
– Dís, þú ert falleg og svo æðisleg.
Hann segir margt fallegt við hana og hún roðnar hvað eftir annað. Brosir sætt til hans og þau skipast á hlýjum orðum.
– Ertu gröð…. slímug rödd Helga sker inn að beini.
Bros hennar hvarf, Það hlaut að koma að því, að Helgi kæmi og skemmdi allt. Hann er alltaf svo ósvífinn og dónalegur.
– Ég veit þú vilt láta Gumma káfa á þér. Það vita það allir.
Dís horfir skömmustulega á gólfið, hvers vegna þarf hann alltaf að vera svona mikill dóni. Gummi reiðist og öskrar á Helga.
– FÍFLIÐ ÞITT!!! VIÐ VILJUM FÁ AÐ VERA Í FRIÐI!!!
– Vúú svo þú getir káfað á henni. HA!!! ég vissi það þið eruð… Helgi kláraði ekki setninguna því María var komin og hún kláraði setninguna sem hann var byrjaði á.
– Syndarar, opnið augu ykkar og hjörtu fyrir Frelsaranum. Dís hristi höfuðið, henni þykir vænt um þau öll en þau geta aldrei verið vinir.
– Dís, þú varst búin að lofa mér. María starði með stingandi augum á hana.
– Ég veit, María, og ég hef ekkert svikið.
Gummi hristi höfuðið.
– Þú hlustar þó ekki á hana, Dís, segðu mér að þú sért ekki svona vitlaus.
Með tárin í augunum kallar hún.
– Ég er ekkert vitlaus, þó ég hlusti á hvað aðrir hafa að segja. Gummi, þú hefur ekki alltaf rétt fyrir þér.
Helgi glotti.
– Þú ert svo getnaðarleg þegar þú ert reiðist, ég skal taka í þig og lofa þér að finna…..
– Æi… haltu kjafti drullusokkurinn þinn, öskraði hún á Helga.
-Dís mín, drottinn mun taka við þér og sýna þér ást, vittu til, en þú verður að gæta tungu þinnar. María reyndi að róa hana.
– Drottin mun frelsa þig…..
– Ég skal frelsa þig…. Helgi hló og blikkaði hana.
Gummi ýtti við henni.
– Ekki ætlar þú að leyfa þeim að koma svona fram við þig.
Hún stóð upp sár og pirruð.
– Hversvegna látið þið svona… getið þið ekki verið til friðs. Skyndilega varð þögn í herberginu og það þýddi aðeins eitt…. Tinna var komin.
– Þú ert byrjuð einu sinni enn…. láttu Gumma vera DRUSLAN ÞÍN!!!
Tinna hrinti Dís svo hún datt á gólfið. Dís rauk á fætur og greip plast glas af borðinu og grýtti í átt að Tinnu, glasið kastaðist í hurðina og svo á gólfið. Hún greip allt lauslegt sem var nálægt og grýtti að Tinnu og öskraði hátt.
– Því lætur þú mig ekki vera, ég vil ekki hafa þig hér, FARÐU!!! LÁTTU MIG Í FRIÐI!!! hvers vegna látið þið svona. Ég vil bara fá að vera með Gumma í smá tíma og þið ryðjist inn á okkur og ausið yfir okkur leiðindum. FARIÐ ÞIÐ!!! LÁTIÐ MIG VERA!!! FARIÐ ÞIÐ!!!
Hún heyrði hurðina á herberginu opnast, vissi hvað myndi gerast næst, SPRAUTAN, það mátti ekki gerast, þá myndi Gummi fara. Hún reif upp stólinn og grýtti honum í átt að hurðinni, hann féll á gólfið með miklum látum. En allt gerðist svo hratt, áður en hún vissi til, var nálin komin í handlegg hennar og efnið rann inn.
Hún heyrir róandi rödd Gumma hvísla í eyra sitt.
– Mundu ástin mín… við hittumst, þegar þú færð að vera eðlileg á ný… þau skilja þig ekki ég er sá eini sem skilur þig. Hún brosir.
– Við hittumst seinna, hvíslaði hún. Þokan féll yfir huga hennar og hún sofnaði, enn einu sinni.